Fundur fyrir alla félagsmenn: Tillögur Royaumont-ráðstefnunnar um reikningskennslu – Áhrif á Norðurlöndum
Fundur verður haldinn í félaginu miðvikudaginn 15. nóvember í stofu V-157 í VR-II við Hjarðarhaga. Að venju hefst fundurinn með kaffidrykkju kl 16:45, en kl 17:00 heldur Kristín Bjarnadóttir, prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fyrirlestur sem hún gefur yfirskriftina: Ný hugsun í skólastærðfræði á eftirstríðsárunum, tillögur Royaumont-ráðstefnunnar um reikningskennslu – Áhrif á Norðurlöndum
Stutt ágrip: Eftir síðari heimsstyrjöld risu upp hreyfingar í ýmsum löndum um tilraunir til endurskoðunar á kennslu og námsefni í stærðfræði. Árið 1959 var haldin námstefna á vegum OEEC, síðar OECD, í Royaumont í Frakklandi um nýja hugsun í skólastærðfræði. Forvígismenn endurskoðunarhreyfinganna sóttu námstefnuna ásamt fulltrúum flestra aðildarlanda OEEC. Niðurstöður Royaumont-námstefnunnar höfðu mikil áhrif á Norðurlöndum. Fyrirlesturinn fjallar um breytingar á námsefni í íslenskum skólum sem voru gerðar í kjölfarið.
Lengra ágrip: Í kjölfar ráðstefnu um nýja hugsun um skólastærðfræði, sem haldin var árið 1959 í Royaumont í Frakklandi, var tekið upp norrænt samstarf um greiningu á stöðu stærðfræðimenntunar á Norðurlöndum, námskrárgerð og samningu kennslubóka í tilraunaskyni. Danskur höfundur, Agnete Bundgaard, og finnsk samstarfskona hennar, Eeva Kyttä, rituðu kennslubókaröð fyrir yngsta stig og miðstig sem þýdd var á íslensku frá og með 1966. Kennslubókaröð þessi verður greind með hliðsjón af tillögum á Royaumont-ráðstefnunni um námsefni í stærðfræði fyrir barnaskóla og borin saman við eldra og yngra námsefni. Niðurstöðurnar sýna að framkvæmd fyrirætlana, sem kynntar voru á ráðstefnunni, um að leggja áherslu á strúktúr talnakerfisins og setja efnið fram með hjálp mengjafræðilegra hugtaka, dvínaði smám saman en framsetning á talnakerfi byggðu á frumtölum og deilanleika gekk í endurnýjun lífdaga í íslenskri skólastærðfræði, ásamt nálgunargildum og mati. Enn fremur komu síðar fram nýir efnisþættir sem ræddir voru í Royaumont, til dæmis tölfræði og líkindareikningur.
Um fyrirlesarann: Kristín Bjarnadóttir lauk mastersgráðu í stærðfræði við University of Oregon árið 1983 og doktorsgráðu í stærðfræðimenntun við Háskólann í Hróarskeldu í Danmörku árið 2006 með áherslu á sögu stærðfræðimenntunar undir handleiðslu Mogens Niss. Kristín hefur kennt stærðfræði og eðlisfræði í efri bekkjum grunnskóla og stærðfræði, eðlisfræði og tölvunarfræði á framhaldsskólastigi. Hún hefur ennfremur gegnt sérfræðistörfum við þróun íslenskrar námskrár í stærðfræði, verið ritstýra alþjóðlegra fræðirita um sögu stærðfræðimenntunar, er meðhöfundur kennslubóka fyrir nemendur efri bekkja grunnskóla og höfundur kennslubókar um strjála stærðfræði fyrir framhaldsskólanema.
Allir velkomnir!