Erindi til mennta- og menningarmálaráðherra
Stjórn Íslenska stærðfræðafélagsins hefur sent Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eftirfarandi erindi.
Efni: Áskorun til menntamálayfirvalda um þátttöku í TIMSS könnuninni 2015.
Í desember 2010 átti stjórn Íslenska stærðfræðafélagsins fund með ráðherra og starfsmönnum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Á þeim fundi hvatti stjórn félagsins til þess að Íslendingar taki þátt í áttundu alþjóðlegu stærðfræði- og náttúruvísindakönnuninni (TIMSS) árið 2015. Með þessu bréfi ítrekar stjórn félagsins fyrri áskorun.
TIMSS er haldin fjórða hvert ár og metur frammistöðu nemenda í 4. og 8. bekk í stærðfræði og náttúruvísindum. Tilgangur hennar er að stuðla að bættum kennsluháttum og betri menntun í þessum greinum. Yfir 60 þjóðir tóku þátt í könnuninni 2011, þar á meðal flestar Evrópuþjóðir og allar Norðurlandaþjóðirnar.
Íslendingar hafa einu sinni tekið þátt í TIMSS könnuninni. Það var árið 1995 og báru niðurstöður hennar íslensku menntakerfi ekki fagurt vitni. Einungis í Kúveit og Íran var frammistaða barna í þriðja og fjórða bekk lakari í stærðfræði. Í sjöunda og áttunda bekk voru niðurstöðurnar litlu betri. Þetta var mörgum mikið áfall og könnunin meðal annars rædd á Alþingi. Þar börðu menn sér á brjóst og lýstu yfir að þvílíkt mætti aldrei endurtaka sig. Það hefur heldur ekki gerst, enda fannst óbrigðult ráð til þess. Ísland hefur ekki tekið þátt í könnuninni síðan.
Reyndar hafa Íslendingar tekið þátt í annarri alþjóðlegri könnun á sviði menntarannsókna frá árinu 2000, nefnilega PISA könnun OECD, og er það vel. Þar hefur árangur íslenskra nemenda í stærðfræði verið um meðaltal annarra þjóða en farið hægt og sígandi versnandi með hverri könnuninni. Í náttúruvísindum hafa íslenskir nemendur ekki náð meðaltali annarra þjóða, en þar er þróunin hinsvegar jákvæð. PISA könnunin mælir hinsvegar aðra hluti en TIMSS könnunin og gefur því ekki sömu upplýsingar. Í PISA könnuninni er fyrst og fremst verið að skoða stærðfræðilæsi 15 ára nemenda í daglegu lífi. Í TIMSS könnuninni er lögð áhersla á að mæla hvort nemendur í 4. og 8. bekk hafi þá hæfni í stærðfræði og vísindum sem námskrá kveður á um. Þar er einnig kannað hvernig kennarar framfylgja námskránni. Þannig gefur TIMSS könnunin nákvæmari upplýsingar um menntakerfið sjálft og frammistöðu nemenda á öðrum aldri heldur en PISA könnunin gerir.
Margt hefur breyst frá árinu 1995. Skipt hefur verið um allt námsefni í stærðfræði í grunnskólum landsins. Fyrirkomulagi kennaramenntunar hefur verið breytt. Nýjar námskrár hafa litið dagsins ljós. Fyrst árið 1999, aftur 2007 og í þriðja sinn 2011. Full ástæða er til að kanna hverju þessar breytingar hafa skilað, því annars eru þær lítið meira en fálm í myrkri.
Stjórn Íslenska stærðfræðafélagsins hvetur því enn og aftur eindregið til þess að Íslendingar taki þátt í TIMSS könnuninni árið 2015. Undirbúningur fyrir könnunina hefst í ársbyrjun 2013 og því brýnt að ákvörðun um þátttöku verði tekin sem fyrst.