Skip to Content

Látum $A$ og $B$ vera tvo ólíka punkta sem liggja á tilteknum hring með miðju $M$. Þeir skipta hringnum í tvo hringboga með endapunkta $A$ og $B$. Tveir punktar á hringnum tilheyra sama hringboganum ef þeir eru sömum megin við línuna $\left<AM\right>$ og einnig sömum megin við línuna $\left<BM\right>$.

Flatarmál er mælikvarði á hversu stórt svæði í sléttu er. Hentug mælieining fyrir flatarmál er ferningur með hliðarlengdir sem eru 1 lengdareining. Slíkur ferningur kallast einingarferningur og hefur flatarmálið 1 fereining. Slík mælieining fyrir flatarmál hvílir vitanlega á vali á mælieiningu fyrir lengd.

Horn kallast rétt horn ef armar þess eru þverstæðir. Öll rétt horn eru jafn stór og gráðumál þeirra er $90^\circ$. Rétt horn er yfirleitt auðkennt á mynd með því að setja ferning við oddpunkt þess.

Flatarmál rétthyrnings er margfeldi hliðarlengda rétthyrningsins. Ef lengd hliðanna er mæld með tiltekinni lengdareiningu, þá er flatarmál rétthyrningsins mælt í fereiningum, þar sem ein fereining er ferningur með hliðar sem er 1 lengdareining.

Látum $M$ vera punkt í tiltekinni sléttu. Hringur með miðju $M$ samanstendur af öllum punktum sléttunnar sem hafa tiltekna fasta fjarlægð frá $M$. Sú fjarlægð kallast þá geisli hringsins. Geislinn er oft táknaður með bókstafnum $r$.

Tiltekið strik $OE$ má nota sem einingu til að mæla önnur strik.

Tvær línur í sömu sléttu sem hafa engan sameiginlegan punkt eru sagðar vera samsíða. Jafnframt er sérhver lína sögð samsíða sjálfri sér. Ef $l$ og $m$ eru samsíða línur, þá er það táknað $l\parallel m$.

Látum $A$ og $B$ vera tvo ólíka punkta. Þá er til nákvæmlega ein lína í gegnum punktana. Strikið $A B$ samanstendur af þeim punktum á þessari línu, sem liggja á milli $A$ og $B$. Þar að auki teljast punktarnir $A$ og $B$ til striksins $AB$ og kallast þeir endapunktar striksins.

Grunnhugtök hefðbundinnar rúmfræði eru punktur, lína og slétta.

Punktur

Punktar ákvarða staðsetningu; þeir hafa enga stærð og þeim er ekki hægt að skipta upp. Punktar eru yfirleitt táknaðir með hástöfum, t.d. $A$, $B$ og $C$.

Lína

Við hugsum um línur sem beinar, ör mjóar og endalausar. Punktar geta legið á línum og í gegnum tvo ólíka punkta liggur nákvæmlega ein lína. Stysta leiðin milli punktanna liggur þá eftir línunni í gegnum þá. Línur eru yfirleitt táknaðar með lágstöfum, t.d. $l$, $m$ og $n$.

Bogagráða

Bogagráða, eða einfaldlega gráða, er mælieining sem oft er notuð til að mæla stærð hringboga og horna. Hún er fengin með því að skipta boga hrings í 360 eins boga. Hver litlu boganna er þá sagður spanna eina bogagráðu af hringnum, táknað með $1^\circ$. Horn með oddpunkt í miðju hringsins sem spannar einn af þessum 360 bogum kallast þá einingarhorn og hefur stærðina $1^\circ$.

Syndicate content