Teningur sem er $11$ cm á hvern kant er búinn til með því að líma saman $11^3$ teninga sem hver er $1$ cm á kant. Hver er mesti fjöldi einingarteninga sem hægt er að sjá í einu?
Lausn
Svar : $331$
Lausn : Með hliðsjón af myndinni getum við sagt að á framhliðinni sjáist í $11^2 = 121$ teninga. Á þeirri hlið sem veit til hliðar sést líka í $11^2 = 121$ teninga, en þeir teningar sem eru á brúninni við framhliðina sjást líka á framhliðinni. Þegar við teljum þessa hlið með bætast því við $11^2 - 11 = 110$ teningar. Á hliðinni sem veit upp sést líka í $11^2 = 121$ teninga, en þeir sem eru á brúnunum við framhliðina og hliðina sem veit til hliðar hafa þegar verið taldir með. Á hvorri brún eru $11$ teningar, en sá sem er á horninu tilheyrir báðum brúnunum, svo það eru samtals $21$ teningur á þessum brúnum. Þegar hliðinni sem snýr upp er bætt við þá fáum við $11^2 - 21 = 100$ teninga til viðbótar. Samtals sjáum við því $121 + 110 + 100 = 331$ tening.