Fjarlægð milli mótlægra hliða í reglulegum áttflötungi er $d$.
Hver er lengd kantanna? (Reglulegur áttflötungur hefur sex horn, átta
hliðar og tólf kanta. Hliðarnar eru jafnstórir jafnhliða
þríhyrningar. Myndirnar sýna reglulegan áttflötung, á annarri myndinni er
hann gegnsær en á hinni ekki.)
Lausn
Við byrjum á að merkja horn áttflötungsins eins og sýnt er á myndinni.
Þar sem áttflötungurinn er reglulegur fellur hann í sjálfan sig ef við
tökum einhverja hlið í hvaða aðra hlið sem er. Af því leiðir að $ABFD$,
$B C D E$ og $A C F E$ eru ferningar með hliðarlengdir $x$, að
hornalínurnar $A F$, $B D$ og $C E$ skerast allar í sama punkti $M$, sem er
jafnframt miðpunktur ferninganna, og hornalínurnar liggja annaðhvort í
ferningunum eða eru hornréttar á þá. Látum $N$ vera miðpunkt $A B$.
Við höfum nú að $M N C$ er rétthyrndur þríhyrningur, lengd $M N$ er $x/2$
og lengd $M C$ er helmingur lengdar hornalínunnar í ferningnum $B C D E$ með
hliðarlengd $x$ svo $|M C|=\sqrt{2}x/2$. Regla Pýþagorasar gefur því að
$$|N C|=\sqrt{\left(\frac{x}{2}\right)^2
+\left(\frac{\sqrt{2}x}{2}\right)^2}=\frac{\sqrt{3}x}{2}.$$
Hæðin á hliðina $N C$ í þríhyrningnum $M N C$ er $d/2$ og með því að reikna
út flatarmál $M N C$ á tvo mismunandi vegu fáum við jöfnuna
$$
\frac{1}{2}\cdot\frac{x}{2}\cdot\frac{\sqrt{2}x}{2}=\frac{1}{2}\cdot
|MN|\cdot|M C|=|M N C|=\frac{1}{2}\cdot|N C|\cdot h_M=\frac{1}{2}\cdot \frac{\sqrt{3}x}{2}\cdot \frac{d}{2}$$
og því er $x=\frac{\sqrt{3}}{\sqrt{2}}d$.