Látum $ABC$ vera þríhyrning. Ef $P$ er punktur á hliðarlínunni í gegnum $A$ og $B$ þannig að strikið $CP$ er hornrétt á hliðarlínuna, þá er strikið $CP$ kallað hæð hornpunktsins $C$ á hliðina $AB$.
Lengd striksins $CP$ er líka kölluð hæð þríhyrningsins frá hornpunktinum $C$ á hliðina $AB$ og er oft táknuð með bókstafnum $h$. Hæðina má líka tákna með $h_C$ ef við viljum tilgreina hornpunktinn. Punkturinn $P$ er kallaður fótpunktur hæðarinnar.
Dæmi: Fótpunktur hæðar frá tilteknum hornpunkti í þríhyrningi þarf alls ekki að liggja á mótlægri hlið hornpunktsins.