Skip to Content

Ef rétthyrningi er snúið heilan hring um eina af hliðum sínum þá fæst sívalningur. Hliðin sem rétthyrningnum var snúið um kallast þá hæð sívalningsins og lengd hliðanna sem eru þverstæðar á hana kallast geisli sívalningsins. Sveigði flöturinn sem myndast við að rétthyrningnum er snúið kallast möttull sívalningsins. Hæð sívalnings er oft táknuð með bókstafnum $h$ og geisli hans með bókstafnum $r$.

Ef rétthyrndum þríhyrningi er snúið heilan hring um aðra af skammhliðum sínum, þá fæst keila. Lengd skammhliðarinnar sem þríhyrningnum var snúið um kallast þá hæð keilunnar og lengd hinnar skammhliðarinnar kallast geisli hennar. Sveigði flöturinn sem langhliðin myndar kallast möttull keilunnar. Hæð keilu er oft táknuð með bókstafnum $h$ og geisli hennar með bókstafnum $r$.