Skip to Content

Vörpun $f$ frá mengi $X$ yfir í mengið $Y$ er forskrift eða regla sem úthlutar sérhverju staki úr $X$ nákvæmlega einu staki úr $Y$. Stakið úr $Y$ sem $f$ úthlutar $x$ er táknað með $f(x)$ og kallast gildi vörpunarinnar $f$ í $x$. Jafnframt er sagt að $f$ varpi $x$ í $f(x)$. Mengið $X$ kallast skilgreiningarmengi vörpunarinnar og mengið $Y$ kallast bakmengi hennar. Rithátturinn $f: X \to Y$ er notaður til að tákna vörpun $f$ með skilgreiningarmengi $X$ og bakmengi $Y$ og ef forskrift hennar er þekkt er hún látin fylgja.

Dæmi:   $f: \mathbb{N} \to \mathbb{R}$; $f(x) = 2 x$ táknar vörpun með skilgreiningarmengi $\mathbb{N}$ og bakmengi $\mathbb{R}$ sem úthlutar sérhverju staki $x$ úr $\mathbb{N}$ stakinu $2 x $ úr $\mathbb{R}$. Til dæmis má nefna að stakið sem $f$ úthlutar $0$ er $f(0) = 2 \cdot 0 = 0$, stakið sem $f$ úthlutar $7$ er $f(7) = 2 \cdot 7 = 14$ og stakið sem $f$ úthlutar $-13$ er $f(-13) = 2 \cdot (-13) = -26$.

Dæmi:   $g: \mathbb{R} \to [0, \infty[$; $g(x) = x^2$ táknar vörpun með skilgreiningarmengi $\mathbb{R}$ og bakmengi $[0, \infty[$ sem úthlutar sérhverju staki $x$ úr $\mathbb{R}$ stakinu $x^2$ úr $[0, \infty[$. Stakið sem $g$ úthlutar $3$ er $g(3) = 3^2 = 9$, stakið sem $g$ úthlutar $1,5$ er $g(1,5) = 1,5^2 = 2,25$ og stakið sem $g$ úthlutar $-5$ er $g(-5) = (-5)^2 = 25$.

Tvær varpanir $f: X \to Y$ og $g: Z \to W$ eru sagðar vera jafnar (þ.e. sama vörpunin) ef þær hafa sömu skilgreiningar- og bakmengi, þ.e. $X = Z$ og $Y = W$, og sömu forskrift, þ.e. $f(x) = g(x)$ fyrir öll $x$ úr $X$. Þá er ritað $f = g$.

Dæmi:  

Varpanirnar $f: \mathbb{R} \to \mathbb{R}$; $f(x) = x^2$ og $g: [0, \infty[ \to [0, \infty[$; $g(x) = x^2$ hafa sömu forskriftina en þær eru ekki sama vörpunin því skilgreiningar- og bakmengi þeirra eru ólík. Raunar eru þessar varpanir gjörólíkar, því $f$ er hvorki eintækátæk meðan $g$ er gagntæk.