Skip to Content

Látum $M$ vera punkt í tiltekinni sléttu. Hringur með miðju $M$ samanstendur af öllum punktum sléttunnar sem hafa tiltekna fasta fjarlægð frá $M$. Sú fjarlægð kallast þá geisli hringsins. Geislinn er oft táknaður með bókstafnum $r$.

Ef $P$ er punktur á hring með miðju $M$, þá er strikið $MP$ einnig sagt vera geisli í hringnum.

Hringur með miðju $M$ og geisla $r$ skiptir punktum sléttunnar í þrjá hluta:

  • Þá punkta sem eru á hringnum; punkturinn $P$ er á hringnum þegar $|MP|=r$.

  • Þá punkta sem eru innaní hringnum; punkturinn $I$ er innaní hringnum þegar $|MI| \lt r$.

  • Þá punkta sem eru utanvið hringinn; punkturinn $U$ er utanvið hringinn þegar $|MU| \gt r$.

Dæmi:   Á myndinni er hringur með miðju $M$ og geisla $r$.

Punkturinn $U$ er utanvið hringinn en punkturinn $I$ er innaní hringnum. Allir punktar á skyggða svæðinu eru innaní hringnum.

Hringskífa

Hringur í tiltekinni sléttu með miðju $M$ og geisla $r$ afmarkar hringskífu. Hún samanstendur af þeim punktum sléttunnar sem liggja annaðhvort á hringnum eða innaní honum.

Punktur $P$ liggur á hringskífu með miðju $M$ og geisla $r$ þegar $|MP|\leq r$.

Dæmi:   Þegar við sjáum sólina eða fullt tungl frá jörðinni, þá getum við lýst þeim sem hringskífum á himninum. Í sólmyrkva þá fer tunglið fyrir sólina. Við getum gert líkan af slíkum sólmyrkva með tveimur hringskífum. Önnur hringskífan lýsir þá tunglinu (sú dökka) en hin lýsir sólinni (sú gula). Í sólmyrkva færist dökka hringskífan (tunglið) yfir gulu hringskífuna (sólina). Við sjáum þá sólina sem hluta af gulu hringskífunni sem ekki liggur á dökku hringskífunni.